17.2.10

Tími bloggsins og lög æskunnar

Ekki er annað hægt að segja en að tími bloggsins hafi runnið upp á Íslandi í kjölfar hrunsins. Fésbókin búin að taka yfir það hlutverk sem margar bloggsíður höfðu, þ.e. að vera samskiptasíður vinahópa. Fésbókin er góð heildarlausn á því sviði. Sama hvort um ræðir fundarboðun, gleðskapsboð eða önnur samskipti. Í kjölfar hrunsins fór virk umræða og skoðanaskipti inn á bloggið. Margir einstkalingar hafa orðið málsmetandi í þjóðfélagsumræðunni í gegnum bloggið. Ég hef hinsvegar lítið bloggað í kjölfar hrunsins, hafði e.t.v. lítið til málanna að leggja. Hef reyndar bloggað frá sumarbyrjun ársins 2000. Þeir fáu lesendur í kringum mig sem lásu mig hafa eflaust haldið á önnur mið.

Mig langaði samt að greina frá lögum æsku minnar, þ.e. þeim lögum sem greipt eru í huga minn úr æsku minni. Þau eru nokkur og nefni ég þau hér fyrir neðan.

Þegar ég var sjö ára þá sá ég kúrekamyndina 100 riffla. VHS tæki ruddist inn í Vesturbergið og pabbi fékk lánaðar tvær ræmur frá Gústa vini sínum. Önnur þeirra var 100 rifflar, mynd frá 1969 með þeim Burt Reynolds, Raquel Welch og Jim Brown. Þau fyrri tvö þarf vart að kynna, en Jim Brown, helmassaður blökkumaður, var mér meiri ráðgáta lengi vel. Svo þegar ég eignaðist myndina og svo tónlistina úr henni 26 árum eftir fyrsta áhorf gat ég ekki annað en grenslast aðeins fyrir um svarta manninn í myndinni. Jim var hlaupari í NFL deildinni og Wikipedia segir hann vera álitinn einn mesta íþróttamann sem BNA hafi alið af sér !!! Það er ekkert annað. Hann spilaði 9 ár í NFL deildinni og tímaritið The Sporting News útnefndi hann besta fótboltaspilara allra tíma árið 2002. Jim á víst enn nokkur met í deildinni. Á yngri árum virðast flestar þær íþróttir, ef ekki allar, hafa leikið vel í hendi hans. Góður sprepphlaupari, góður spretthlaupari… já, það var hann víst. Ef þú ert það þá lyggja snerpugreinarnar vel fyrir þér. Jim lagði fyrir sig kvikmyndaleik eftir íþróttaferilinn.

Eitt það markverðasta við 100 riffla er að þar brá fyrir á hvíta tjaldinu einni fyrstu ástarsenu svarts manns og hvítrar konu.


1. 100 Rifles – Main Theme. (Höf. Jerry Golsmith)


100 rifflar skildu eftir sig ljúfsára minningu í huga sjö ára drengs, leiðir aðalpersónanna skildu í lok myndar, man það.

Vídeótækið gerði stormandi lukku í Vesturberginu. Fyrir utan að horfa á upptökur af Stikluþáttum með pabba og liggja með Völu systur yfir Matreiðslunámskeið Magneu með Gísla Halldórssyni og The Birds Hitchkocks þá var ein mynd sem ég horfði öðrum myndum oftar á. Pabbi fékk Goldfinger lánaða hjá Gústa vini sínum. Gústi rak vegasjoppu í Húnavatnssýslunni á tímabili, man það – það er annar handleggur. Í Goldfinger urðu fyrstu kynni mín af Shirley Bassey, þau kynni áttu eftir að verða meiri síðar. Ég er áhugamaður um dökkar alt kvenraddir. Cleo Laine er önnur markverð alt söngkona. Sjö ára dreng þótti lasersenan mjög spennandi.


2. Goldfinger – Main Theme (Höf. John Barry)


Ég vissi ekki alveg hvaða band Kraftwerk var árið 1984, en ég fílaði í ræmur lag þeirra Model. Hlustaði aftur og aftur á lagið og þá sérstaklega spólaði ég til baka á kasettunni til að hlusta á millikaflan. Síðar átti ég eftir að sjá Kraftwerk spila lagið í Kapplakrika.


3. Model - Kraftwerk


Þegar ég var átta eða níu ára þá heyrði ég lag sem hitti mig í hjartastað. Falsettan var alveg ómótstæðileg og ég gaulaði hana eftir. Ég byrjaði snemma að gefa frá mér hljóð. Ef foreldrar mínir hefðu verið leikhúsfólk þá hefði ég orðið barnastjarna, en sem betur vann pabbi minn hörðum höndum fyrir sér sem vélstjóri og mamma sá um að fæða mig og ala upp. Ég spilltist ekki, allaveganna ekki þá. Já, lagið, lagið var Hocus Pocus með hlómsveitinni Focus frá Hollandi.


4. Hocus Pocus – Focus


RÚV sýndi kúrekamyndir í gríð og erg í kringum 1986 og gerði það líka fyrr. Tvær myndir sitja fast í minni mér. Fistful of Dynamite Sergio Leone og Butch Cassidy and The Sundance Kid með þeim Paul Newman og Robert Redford. Fistful of Dynamite skartaði þeim James Coburn og Rod Steiger í aðalhlutverkum. James Coburn fyrrverandi IRA maður og í minni mín var Rod Steiger mexíkóskur fjölskyldumaður. Epísk stórmynd. En það sem sat í mér var lokasena myndarinnar, þegar brúin var sprengd og þemalag myndarinnar í lokasenunni. Það liðu 9 ár uns ég heyrði þemalagið aftur, þá í Útvarpi Versló á ljósum Miklubrautar og Háaleitis, enn liðu tvö ár og þá fékk ég disk með Ennio Morricone lánaðan hjá Gumma Njál, vinnufélaga í Áburðarverksmiðjunni. Ég hafði himinn höndum gripið tveim. Hádramatísk tilfinning með votti af eftirsjá, sat eftir í huga 10 ára drengs að sumri til í sófanum í Vesturbergi árið 1986.


5. Fistful of Dynamite – Main theme


Síðasta lagið sem ég nefni komst ég svo yfir um daginn. Ég átti eftir að kynnast bókum Milan Kundera, en fyrstu kynni okkar urðu þegar ég horfði á mynd gerða eftir bók hans, Óbærilegum léttleika tilverunnar. Í byrjun myndarinnar ekur skurðlæknirinn og kvennamaðurinn Thomas bíl sínum í Tékkóslóvakíu árið 1968 og undir hljómar píanóverk Leos Janacek – Pohadka. Myndina sá ég árið 1990. Lagið fann ég á Youtube.


6. Pohadka – Leos Janacek


Man ekki eftir fleiri lögum í svipinn, þau eru eflaust fleiri. Bæti við ef þau poppa upp í hugann á næstu klukkustundum. Bestu kveðjur, lifið heil.

|




26.2.09

Ljósmyndin...

Myndir skilja eftir sig spurningar. Myndir skilja eftir sig svör. Myndir segja þér eitthvað. Á svarthvítum fleti eða lituðum lítum við myndir og þær tala við hugann. Fékk í jólagjöf ljósmyndabók, öllu heldur bók sem inniheldur verk Sigurðar Guðmundssonar fjöllistamanns. Sigurður segir þroskann liggja í því að loka einni hurð og opna aðra. Það er áfangi. Margir að loka hurðum þessa daganna eða þeim þá skellt á fólk eða af því. Í útvarpi talað um innávið pælingar í kjölfar kaflaskila í innra og ytra lífi. Við stjórnum því innra með okkur en hið ytra getur haft áhrif á hið innra. Sjálfið. Við getum stýrt sjálfinu, það er langhlaup að stjórna sjálfinu.
Hver á ekki stafræna myndavél? Ég á eina slíka. Ég tek margar myndir en þær segja mér ekki margt umfram það sem á myndinni er, stóll, fólk, fjalll. E.t.v. ekki mitt að dæma myndirnar. Ég nefndi Sigurð Guðmundsson, hann nær því svo vel að skilja ekki eftir spurningu, hann svarar spurningunni sem þú hugsanlega hafðir. Það er allt á myndinni sem á að vera þar. Maður segir bara við sjálfan sig, aha, helvíti sniðugt. Hann hittir naglann á höfuðið.

Bara að það væru fleiri eins og Sigurður. Eftirá séð virðist allt svo augljóst. Þetta gildir um margt. Efnahagsmál, íþróttir, bókmenntir. Sigurvegararnir skrifa söguna. Til skamms tíma voru þeir aðrir fyrir ári en nú í dag. Falsspámenn gærdagsins eru handhafar sannleikans í dag. Sá sem sigldi gegn straumi í gær, rær með honum dag. Sá sem bakaði pönnukökur í gær er búinn að kveikja í eldavélinni í dag og svissar því um ás og kaupir örbylgjuofn. Það er hasar í loftinu. Rafmagnið sem gerir ofangreint kleift, stuðar einn og hjálpar öðrum. Rafmagnið flytur fjöll, ekki bergið sjálft, heldur myndina af því. Rafmagnið flytur fjöll í gegnum þræði. Vonandi að næstu dagar flytji okkur góða strauma.

|




19.11.08

Meira en ár liðið

Já, það er meira en ár liðið frá því ég slengdi nokkrum orðum í púkk, sem svo fáir hafa lesið, í leit vafri sínu um netið. Nokkur orð, svona eins og sandkorn á strönd, svo mikið af þeim, þau falla í fjöldan - svo mikið af þessum orðum, þessum sandkornum.

Það getur verið gott að standa upp úr stólnum, hvíla, halda annað; fá fjarlægð og annað sjónarhorn á þá atburði - það háttarlag sem stundað er. Ég valdi að skrifa ekki á vefinn, var orðinn þurrausinn, hafði verið tómur brunnur um nokkurt skeið.

En rétt eins og verður með þessar virkjanir á Hellisheiðinni, þegar þær eru tómar, þá eru þær einskis nýtar. En þær fyllast aftur, það tekur tíma, en tíminn líður og það kemur að því að þær fyllast aftur, þessar holur sem sjá okkur fyrir ylnum sem við ornum okkur við, jafnt í baði eða við ofninn.

Tímarnir breytast og... tímarnir eru að breytast... tvær endingar úr sitthvorri áttinni. Bob Dylan hefur alltaf verið duglegur að umbreyta sér, við fáum aldrei það sem við viljum - hnakkurinn breytir um lögun í hvert skipti sem áð er og stigið af baki... ekki hægt að ríða á þessum hnakki, óþægilegur... þannig eru Bob Dylan. Ég settist á hestinn Bob, sté af honum, settist á ný og sté af honum og hef ekki riðið síðan - á Bob. En þeir sem breytast eins og við viljum að þeir breytist, breytast e.t.v. ekki með tímanum, þeir eru fyrirsjáanlegir. Vilji okkar er yfirleitt fyrirsjáanlegur og innan þægindasvæðisins.

En nóg um það. Nóg um hjal og mal og blaður. Máske hafa nokkrar villur slæðst með - gerir þetta bara ferskara. Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er blautt og kalt eins og vitund mín sjálfs... er þetta rétt.

Aha... eru vandamál, eru þau e.t.v. ekki. Skynjarðu þau bara rétt eins og línurnar fyrir ofan. Þú skynjar þau kannski bara eins og vindinn. Hann er þarna, bifar þér ekki, hann er þarna og þú finnur fyrir honum. Ef hann blæs hart í andlit þér þá rennur úr augunum, stormurinn markar þig, en bara tímabundið.

|




1.11.07

Hvernig tókst svo til...

Jæja, einbeiting skein af mér þegar ég tók mér á hendur 300 prófið. Maður verður alltaf að hafa markmið í öllum sínum æfingum, annars gerir maður þær með hangandi hendi/hönd. Ég var einn eftir í salnum svo ég gat öskrað og látið önnur hljóð úr munni mér fara.

1. Upphífingar (breitt grip) – 25x. Var ekki alveg að ná þessu – 9x
2. Deadlift 60 kg – 50x. Ekkert mál fyrir Árna stál.
3. Armbeygjur – 50x. Rúllaði þessu beygjum upp.
4. Hopp á 60 cm bekk – 50x. Þessi æfing er kid-stöff.
5. Magi (legið á gólfi og haldið stöng = 60 kg, fætur beinir hífðir frá gólfi að vinstra/hægra lóði, svo niður aftur) 50x. Þessi tók hvað lengstan tíma, kláraði þá. Erfiðari magaæfingar til.
6. Ketilbjöllulyfta 16 kg (með einum handlegg, clean & jerk) – 50x. Notaði lóð og kláraði.
7. Upphífingar – 25x. Orkan eitthvað búin, náði 5x.

Þetta gerði ég án þess að hafa tekið þrekhringi í nokkurn tíma. Þetta segir okkur að nóg af búkum geta rúllað þessu sæmilega í gegn. Var 21:30 mín að þessu. Notaði m.a. tímann í að stilla upp lóðum og svona. Nú er bara að æfa upphífingarnar.

|




27.10.07

Þrekhringir og 300

Á daga mína hefur fátt drifið undanfarið. Æft eitthvað en ekki nógu mikið, lesið nokkuð. Hef stundað þrekhringi sl. ár bæði á frjálsíþróttaæfingum og í HÍ gymminu. Hef mikla unun af slíku enda hluti af heilbrigðum lífsstíl. Öllum er hollt að stunda góðar æfingar og það sem ávinnst af þrekhringjum er bæði styrkur og úthald. Mikill akkur er t.d. í einstaklingum sem stunda þrekhringi þegar kemur að búslóðaflutningum. Hef mælt púlsinn þegar þrekhringir eru teknir og er hann í kringum 140-180 slög á mínútu.

Missti af umræðu um þjálfun leikaranna í kvikmyndinni 300 ef hún var þá einhver. En svona umræður skapast eflaust þegar kvikmyndir eru sýndar þar sem líkamlegs atgervis er þörf eða þá kunnáttu af einhverju tagi, sbr. myndir eins og Striptease eða Fight Club. Man nú reyndar ekki eftir súlumeyjanámskeiðum. En fór á netið og fann æfingapróf sem sett var fyrir áhættuleikara og leikara sem að komu að ræmunni 300. Aðeins einn leikari tók prófið og ekki var það víst Gerald Butler en nóg um það. Æfingarnar eru hér fyrir neðan, engin hvíld er milli æfinga.

1. Upphífingar (breitt grip) – 25x
2. Deadlift 60 kg – 50x
3. Armbeygjur – 50x
4. Hopp á 60 cm bekk – 50x
5. Magi (legið á gólfi og haldið stöng = 60 kg, fætur beinir hífðir frá gólfi að vinstra/hægra lóði, svo niður aftur) 50x
6. Ketilbjöllulyfta 16 kg (með einum handlegg, clean & jerk) – 50x
7. Upphífingar – 25x

Maður þarf a vera nokkuð harður nagli til að klára þetta.
Margar íþróttagreinar byggjast á þjálfun áþekkri þessari, m.a. frjálsíþróttir. Hef í gegnum árin farið á fjölda æfinga þar sem lóð hafa verið höndluð – æfingar eins og 6-8 æfingar 5-6 hringir, þrekhringir með hoppum og ýmsum æfingum eins og armbeygjum, dipsi, upphífingum, maga- og bakæfingum, mediciboltaæfingum, hnébeygjum, skíðahoppum og mörgum fleirum. Æfingar sem byggjast á upphitun í formi 30 mínútna skokks, 10 mínútna sippi, þrekhring og svo jafnvel sprettum á eftir. En fólk gerir sér oft ekki grein fyrir hvað þessar æfingar gefa.
Ég er nokkuð brattur að eðlisfari. Hvað gæti ég?

1. Upphýfingar – 15x
2. Deadlift 60 kg – 50x (hlýtur að vera eftir þessi hlaup öll)
3. Armbeygjur – 50x (kannski 40x eftir undangengið erfiði)
4. Hopp á 60 cm bekk – 50x
5. Magi – 20-30x
6. Ketilbjöllulyfta – 25x
7. Upphífingar – 10x

Já, nokkuð brattur. Nú er bara að láta slag standa og prófa þetta.

|




10.9.07

Ólag

Skil ekkert í þessu. Hermdarverk á síðunni og ég skipti um lykilorð. Vonandi slepp ég við hakkara en það kemur þá bara í ljós.

|




4.9.07

Matur

Ég hlakka alltaf svo ógurlega til matmála. Ég vil helst ekki þurfa að hætta að borða og finnst stundum alveg synd þegar ég geri það. Vil borða eftirrétt en ekki endilega forrétt. Forrétturinn stelur list frá aðalréttinum. Ef ég borða semí-mat þá fyllist ég oft eftirsjá. Ég borða aldrei standandi nema að mikið liggi við. Átta mig ekki á fólki sem borðar t.d. snúða á göngu. Svo átta ég mig ekki á sumum drengjunum í búningsklefanum í Sporthúsinu þar sem ég er einu sinni í viku í bolta. Sumir eru svo blekaðir, ekki af áfengi bara svona orðrétt blekaðir af bleki. Svona steitment, verið að merkja nýju vöðvana í stíl við bólurnar á bakinu. Línur yfir axlir, hausar á hálsi, klessur á handarbaki. En einstaklingarnir koma upp um sig með limaburði og hlutföllum. Hægt er að sjá það á viðkomandi hvort hann hafi lítið hreyft sig í æsku með því að fylgjast með göngulagi og limaburði og hlutföllum – litlir kálfar og svona. En nóg um þetta – hætti mér ekki út í frekari bollaleggingar. Ef krafa viðkomandi er meiri virðing og þess vegna ekki notuð orða eða háttarlag þá valið blek, því e.t.v. blekhafi málhaltur. Ætti frekar að skrá sig á Dale Carnegie námskeið eða hjá JC.

Annars var ég að spá í að fara uppeftir í Grímsnes í vikunni og hitta smiðina sem eru að gera bústað foreldraminna standhæfan. Koma með mynd af Magnúsi Ver og segja að hann sé pabbi minn. Hann vilji að bústaðurinn verði tilbúinn hið fyrsta. Annars er pabbi minn ekkert lamb að leika við og ótrúlega handsterkur. Margir gætu ekki trúað því hversu hraustur hann er. Ég hugsa þá hugsun ekki til enda ef innbrotsþjófar myndu lenda í mér og pabba.

|




22.8.07

Á mörgum vígsstöðum

Bikarkeppni lauk, við tók Reykjavíkurmaraþon Glitnis, svo Reykjavíkurmeistaramót 14 ára og yngri og teppalagning í Höllinni þar í kvöld. Bakvið þessa fjóra atburði liggja svo klukkutímar við símann mun fleiri en í sjálfa atburðina fóru. Sjálfboðavinna lengir lífið. Svo í vændum er Bikarkeppni 16 ára og yngri sem félagið heldur. Þar á undan markaðsstarf í grunnskólum, skólamót og bæklingagerð og svo vertíð í vinnunni. Læt eina gamla sögu fylgja.

Raunir Haðar

Í mörkinni sem umlukin er jöklum og fjöllum og þar sem eitt sinn riðu hetjur og útilegumenn ráfuðu, skáluðu nú unglingar í landa um helgar og fjölskyldur nutu samvista. Þar bjó einnig lítið lamb sem villst hafði langa leið frá hjörð sinni. Beit var með öllu bönnuð í Þórsmörk en hvað vissi lambið, það yrði ekki ljóst að það væri týnt fyrr en í smölun um haustið rétt fyrir slátrun. Frændur og frænkur færu á innanlandsmarkað, sum til Færeyja og önnur til hinnar stóru Ameríku, markaðssett og seld dýrum dómi sem lúxuslömb.

Lambið átti óljósar vonir og drauma því það þekkti hvorki fortíð sína skilgreinilega og hvað þá heldur framtíð og gat sér móðukenndar hugmyndir um nútíðina sem það lifði í. Lambið lifði fyrir daginn í dag eins og öll dýrin í skóginum nema maðurinn. Maðurinn trúir á einn guð, líkneski, sjálfan sig eða ekki neitt og þekkir skil á fortíð, nútíð og framtíð, því manninum er tungumál og munnleg geymd ásköpuð. Til allrar lukku var lambið ekki af forystukyni því þá hefði það stangað mann og annan og verið hirt fyrir athæfið af landvörðum og sent í sína heimahaga. Lambið var orðið nokkuð feitt því nóg var að bíta og brenna í mörkinni. Lambið var Höður, prins merkurinnar.
Nokkuð vítt var til allra átta fannst Heði því hann þekkti fátt annað og minni sauðfés er stopult. Grasbítar hafa ekki þurft að hafa fyrir máltíðum líkt og rándýrin sem beita klókindum við veiðar og heilastarfsemin því ekki flóknari en raun ber.
Verslunarmannahelgi var í nánd og Höður sá dalinn fyllast af fólki. Óhljóðandi kassarnir frussuðust yfir beljandi jökulfljótið, mikill hávaði var í sumu mannfólkinu en aðrir gengu hljóðlegar um, en allt reisti það litlar hálfkúlur eða þríhyrninga. Tómt vesen þetta að vera ekki vaxið ull og þurfa að klæða sig í marglit efni en það er annar handleggur og eldri saga sem snýr að hinu fullkomna kælikerfi mannsins sem þróaðist þegar maðurinn veiddi sér til matar með því að elta uppi bráð sína í heitari álfu og gat ekki dokað við og andað til að kæla sig líkt og önnur dýr steppunnar, því að tími er matur, tími er líf. Hárlaus líkami var ekki alveg rétta kaffið á norðurslóðum en ekki var hægt að snúa þróunarferlinu við úr þessu.

Höður lét lítið fyrir sér fara, fólk virtist hafa gaman af lukkudýri í Slippugili.
Höður átti sér einskis ills von þar sem hann lapti úr læknum. Það var þrifið í afturlappirnar og hann hljóðaði. Heði var dröslað eftir grasinu og hann sá lækinn fjarlægjast og heyrði hróp nálgast. Einhverjir voru illskulegir á svip gagnvart fangaranum en aðrir klöppuðu á bak honum. Fjallalamb komið í tjaldbúðir og snarkandi eldur, sem er ekki vinur neinna lifandi vera annarra en mannsins, var nærri . Heði var lyft upp og slengt til jarðar. Hann heyrði hljóð sem hljómuðu "ég rotaða sem steinbít og grilla í kvöld", en skerandi öskur heyrðist svo "ertu siðferðislega brenglaður, maður fer ekki svona með dýr, láttu lambið vera, farðu aftur með það að læknum". Höður var aumur í annarri afturlöppinni. Fangarinn fjarlægðist og smávaxnara mannfólk ataðist í honum, kvenkyns líklegast eins og sumt hans skyldfólk.
Fangarinn tók Höð upp og gekk með hann að sprænunni sem hann hafði stuttu áður lapið lífsins vökva úr. En eitthvað var ekki eins og það átti að sér að vera. Höður var reikull í spori, hægri afturlöppin var brotin og snéri skringilega. Höður dröslaðist með undarlegu göngulagi á brott frá mannabúðunum. Næstu daga heyrðust skringileg hljóð í fólki og úr trékössum. Svo var dalurinn tómur og umbúðir einar eftir. Höður fylgdist með fólki í samfestingum týna smáhluti og umbúðir af flöt dalsins. Dagarnir liðu og þeir urðu Heði sífellt erfiðari og erfiðari. Höður vissi ekki að hann var með opið beinbrot og sýkingu í löppinni.

Svo var það dag einn að ógnarhvasst var í dalnum. Höður hafði ekki yfirgefið dalinn eftir ófarirnar, hlíðarnar voru of brattar fyrir veika löppina og grjótið við enda dalsins var ófrýnilegt yfirferðar svo hann hafði ekki reynt að kanna frekara beitiland. Vindurinn var mikill og Höður réði ekki við hann. Hann hrökklaðist nær enda dalsins og gat sér ekki rönd við reist. Í grjótinu veltist hann og sá dalinn fjarlægjast og grjótbreiðuna stækka. Höður hringsnerist og sá nú jökulána fyrir framan sig. Hann stóð stjarfur og feyktist nær því. Kindur eru þeim óeiginleika búnar að geta ekki gengið afturábak og Höður átti ekki þann kost vænstan að reyna bakka frá fljótinu, vindurinn hleypti honum hvorki til hægri né vinstri, bara nær fljótinu. Svo kom kviða og Höður léttur og eitt sinn lipur hófst á loft og stakkst ofaní gruggugan strauminn. Hann gat ekkert gert, landið hreyfðist en fljótið ferðaðist á sama hraða og hann. Hann gat ekkert gert. Höður var orðinn máttfarinn og sá brú nálgast. Höður lokaði augunum og gaf upp öndina. Hvítfyssandi jökuláinn breiddi úr sér og ferðalangurinn flaut hreyfingarlaus á yfirborðinu flæktur í trjágrein. Fljótið og lítið lamb sameinuðust hafinu og langt ferðalag tók við. Það var svo á haustdögum að lítið rotið lambhræ kom upp að ströndum Vínlands rétt eins og áar þess höfðu gert með Leifi heppna og öðrum landnemum röskum þúsund árum fyrr, en hann endaði ekki líf sitt á leg, heldur láði.
Þetta er sagan af lambinu sem enginn mun heyra, sagan af lambinu sem ferðaðist ekki með flugfragt eða flutningaskipi til Ameríku. Þetta er sagan af lambinu Heði sem hafstraumar báru til fjarlægrar álfu. Sagan af á sem dó í á.

|




19.8.07

Reykjavíkurmaraþon

Starfaði sem þulur í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Margir unnu gott starf í sjálfboðavinnu og margir bættu tíma sína í hlaupinu. Það sem kom mér mest á óvart var þegar ég sá rúmlega tvítugan pilt koma í mark í hálf maraþoni. Hann hljóp í Converse skóm takk fyrir. Í hvítum uppháum Converse skóm en samt sem áður í hlaupabol og stuttbuxum. Á dauða mínum átti ég frekar von en sjá keppenda hlaupa í þetta löngu hlaupi í skóm sem þessum...

|




24.7.07

Böðull

Það er hreint magnað hvað ég eyði miklum aurum í viðgerðir á hinu og þessu. Vikulega fer ég á saumastofu með fataleppa og svona einu sinni í mánuði til skósmiðs. Ég keypti mér jakka um daginn, lét stytta ermar og brúkaði flíkina svo á föstudaginn. Það vildi ekki betur til en svo að í Singstar keppni settist ég upp í gluggasyllu og veit ekki fyrr en reykjarlykt ber að vitum mér og finn fyrir því að slegið er á rass minn. Ég hafði sest upp við kerti og kviknað hafði í jakkanum, lukkan var með mér og snarræði áhorfanda er fyrir að þakka að tjón varð ekki meira. Anna Dóra rassskellti logana í burtu.
Svona skemmdir er hægt að meðhöndla, Jensína, saumakona í Grafarvogi á eftirlaunum kann kúnststoff (ofið úr efninu) og mun laga þetta.

Ég fékk lánaðar forlátar leðurbuxur í vor sem stóðu ásamt eiganda sínum á sviðinu með Eiríki Haukssyni nú um daginn í Finnlandi. Ég fór yfir brækurnar þegar ég skilaði þeim en fékk nú sms-skeyti í dag þar sem tilkynnt var um ryfu í klofi. Þar bætist kostnaður við minn reikning og fer ég með flíkina á leðurvinnustofu í vikunni. Þess má geta að jakki góður í minni eigu er einmitt sem stendur á saumastofu þar sem lagfæring á baki á sér stað, svo þarf einnig að kúnststoffa vegna brunagats. Jensínu er ærið verk á höndum.

Fyrir stuttu þurfti Saumastofan svo að lagfæra tvennar peysur vegna brunagata og sjálfur lagfærði ég eina með nál og tvinna vegna líkkistunagla sem einhver prófaði á peysunni minni. Sömu meðferð fékk Samsöy jakkinn minn góði í fyrravetur.
Fyrir stuttu síðan fór ég með þrenn skópör á skóvinnustofuna í Austurveri. Lagfæringar á hælum og fleiru, svo bíða spariskór þess að vera lagfærðir, botninn rifnaði frá sóla – tvö skipti á Kaffibarnum þurfti til (brúðkaup ástæða skónotkunar) – spánýir skór.

Sl. vetur hljóp ég milli staða í hálku í jakkafötum af dýrari gerðinni en varð fótaskortur og lenti á hné. Það kallaði á kúnststoff með hreint mögnuðum árangri. Stuttu síðar lenti ég á hinu hnénu í sömu buxum og aftur bjargaði Jensína mér.

Sl. sumar hljóp ég á afturenda spjótkastsspjóts sem fór inn hjá hnénu og út við aftanvert læri – heppni í óheppni, hné og læri sluppu en buxur ekki. Lagfæring á saumastofu og buxurnar bara töff með góða sögu á hliðinni.

Ég á silfurlituð jakkaföt sem ég hef ekki notað frá því Kaðallinn brúkaði þau í grímupartíi. Fékk þau fyrir áramótagaul hjá Sævari Karli. Þau urðu lúin. Ég afrekaði það að hlaupa á hraunvegg í þeim og rífa, slædaði ögn á mikilli ferð. Jórunn Thorlacius bjargaði. Ég svitnaði nokkuð í þessi föt. Komst alltaf fram fyrir röð á skemmtistað einum því ég sagðist söngvari bandsins sem spilaði þar – svo kom að sagan varð lúin.

Ég tók eytt sinn þátt í Söngvakeppni framhaldsskóla. Í þeirri keppni lánaði Jónas Þorvaldsson mér forlát brún flauelsföt, eflaust saumuð á fæðingarári mínu. Hann nam þar kvikmyndagerð en hefur nú nýverið látið af störfum sem forstjóri fasteignafélagsins Stoða – hann er einnig verkfræðingur. Buxurnar við fötin voru þröngar og reif ég þær á rassinum. Voru þær lagfærðar og festi Baldur vinur minn Vilhjálmsson kaup á fötunum.
Fyrir svo sem 18 mánuðum í gleðskap við Rauðavatn í sumarhúsi við leik, dans og skál, tók ég upp á því að hlaupa yfir gaddavírsgirðingu. Baldur vinur minn hafði lánað mér fötin. Ég reif buxurnar frá miðju læri og niður. Það varð buxunum til happs að þær rifnuðu við sauminn. Nú hanga fötin inni í skáp (lagfærð af Jórunni Thorlacius saumakonu á eftirlaunum) og bíða þess að verða afhent Baldri.

Ég hljóp eitt sinn í forlátum grænum Dieselfrakka í gegnum dyr í Áburðarverksmiðjunni sálugu, hurðahúnninn fór í vasa og jakkinn rifnaði svo um munaði. Jórunn Thorlacius lagaði það sem svo margt annað.

Svo í ofanálag á ég það til að týna vettlingum og treflum og nú finn ég ekki góða peysu. Tími er peningar og oft hleypur maður milli staða. Á það til að týna íþróttafötum, er með fulla tösku og eitthvað dettur úr henni og ég skreyti göngustíg eða götu með hlaupþröngbrókum. Síðustu gleraugu mín notaði ég t.d. á Hverfisbarnum en þau fylgdu mér ekki heim. Svo hafa bolir og hankar á gallabuxum rifnað þegar þotið er fram hjá hurðahúnum. Ég tek það samt fram að skór mínir (50-60 stk.) eru flestir vel burstaðir (sé um það sjálfur), skyrtur mínar straujaðar (sé um það sjálfur), buxur pressaðar (sé um það sjálfur) og önnur föt þvegin (sé einnig um það sjálfur).

Ofantalið er fórnarkostnaðurinn sem ég þarf að greiða fyrir að vera ég.

Ástæðan fyrir því að ég keyri um á druslu er ekki sá að ég sé ávalt að lenda í eða valdur að árekstrum, nei...
Aurinn fer allur í saumakonur...

Ég er fataböðull.

|




13.7.07

Tvíhöfði

Hef verið að hlusta á gamla Tvíhöfðaþætti frá því frá áramótum.
Mæli með þessum

Smásálin er það sem gerir þessa þætti af meistaraverki. Fálkaorðan næst, eina orðu um svírana.
Það virðist annar hver karlmaður um og yfir sjötugt sem hringir inn vera með exem á olnbogum og hnjám, það virðast annars vera til húsráð gegn hverjum kvilla sem borinn er á góma. Hundaskítur í klofið gegn hlandbruna og á olnboga og hné vegna exems. Hundaskíturinn er sagður einnig góður fyrir menn sem hárið er farið að þynnast á.

|




11.7.07

Af engu

Fólk slær oft um sig með speki. Gott að geta vitnað í einhverja íslenska standarda eins og t.d. Alþýðubók Halldórs Laxness eða þá erlenda speki, hvað þá heimspeki. Orðatiltæki eru vinsæl, hann ríður ekki með vitið í þverpokunum er ekki slæmt, slæmt er finnst mér ef ég heyri spurninguna er glasið hálf tómt eða hálf fullt. Ekki hægt að tala um orðatiltæki, frekar bara svona eitthvað sem einhver notar til að lýsa stemmingu. Bjartsýnn maður segir hálffullt eða þá að keppnismaður í drykkju segir hálftómt því honum finnst aldrei nógu mikið áfengi í glasinu.

Ég á nokkrar heimatilbúnar setningar sem ég hef farið með, þetta eru eiginlega runur. Spekingslega lætur maður móðan mása og virðist fyrir vikið betri en maður er. Lét félaga nokkrar í té fyrir veislu sem hann sótti. Manni finnst persónur í myndum Woody Allens alveg hreint yfir meðallagi í greind þegar þær taka orðavaðal hvað eftir annað. Spekin rennur reyndar út úr Noam Chomsky en við hann geta fáir menn borið sig saman við enda á enginn maður núlifandi fleiri tilvitnanir eftir sig en hann, en reyndar fyrir annað en að vera samfélagsrýnir, heldur málfræðingur.

Sóun er slæm. Ég á það samt til með að skilja mjólkurfernur hálf fullar eða að fjórðungi fullar frekar, eftir þar sem ég sit við og drekk mjólk. Ég er nokkur mjólkurkálfur, rjómablandaði hana stundum í Áburðarverksmiðjunni.

Fór á kaffihús áðan og fékk þá spurningu (frá ágætum manni sem ég hafði rétt í þessu kynnst) fyrir hvaða verslun ég sæi um innkaup, hann leit sem sagt á mig sem innvígðan, gerði ráð fyrir því þar sem hann er sjálfur í bransanum.

|




6.7.07

Keppandi á Landsmóti UMFÍ

Ég er skráður til keppni á Landsmóti UMFÍ og það á 100 ára afmæli hreyfingarinnar. Er skráður í 400 m grindahlaup og 400 m hlaup. Hef ekki æft vel í vetur, 2-4 æfingar í viku en bý að áralangri þjálfun. Svo var það í síðustu viku að ég tók sex daga æfingalotu. Nóg um það. Óvíst er um þátttökuna eftir æfinguna í gær. Held ég hafi tognað í hamnum eftir hlaup á grindur. Bætingar á Landsmóti fyrir þremur árum á Króknum. Þetta kemur allt í ljós eftir upphitun á morgun.

Keppni

Keppni er öllum holl. Sem börn og unglingar lærum við leikreglurnar sem nýtast svo í lífinu síðar meir. Keppnin kennir okkur hvernig ber að haga sér gagnvart náunganum, kennir okkur að fagna sigri eftir eftir að akur hefur verið vel plægður og einnig að taka tapi. Öllum er hollt að tapa einhvern tímann en tapið sjálft er skilgreiningaratriði.

Í lífinu jafnt sem íþróttum plægjum við jörðina, sáum, vökvum og uppskerum svo. Og uppskeran sýnir svo hversu vel var að öllu staðið. Ef hún er dræm ber að líta í eiginn barm og skoða hvað fór úrskeiðið, læra af mistökunum. Sjálfstraustið eykst svo við sigra og gefur okkur meiri trú á að við getum náð takmörkum okkar, sjálfsmynd batnar ef hún var ekki traust fyrir. Það eru þessi litlu atriði sem skapa sjálfsmyndina - smásigrarnir. Raunhæf markmið eru lykillinn.

Ég keppti í hópíþróttum fram yfir tvítugt en snéri mér svo að einstaklingskeppni. Hef nú æft frjálsar af mismiklu kappi í rúm sjö ár. Ég keppi í 400 m og 800 m. Hef mátt keppa meira en ég hef gert.

Þegar ég et kappi í hópíþróttum trúi ég því sjaldan að ég muni tapa, fer ávalt með því hugarfari að ég muni sigra og þrátt fyrir að horfur séu kannski ekki góðar á tímabili þá trúi ég því alltaf að vel muni fara og aldrei megi gefast upp. Í frjálsunum veit ég hins vegar vel að ég muni ekki vinna hlaup sem ég tek þátt í. Hvað segir mér það – jú tímarnir hjá hinum keppendunum. Maður keppir alltaf við sjálfan sig. Setur sér raunhæf markmið – keppir e.t.v. ekki við þann sigurstranglegasta, Maður gefur sér réttar forsendur. Rétt eins og í lífinu, maður tekur bara eitt skref í einu, maður nálgast heimsmeistarann ekki í fyrsta skrefi. Það eru margar tröppur sem þarf að þramma uppávið ef tindinum skal náð.

|




2.7.07

Fataleppar o.fl.

Þegar ég kem heim eftir vel heppnað kvöld í miðbænum og ríf af mér leppana þá eru skórnir yfirleitt ósáttir, enda búið að traðka á þeim að neðanverðu og ofanverðu. Maður ætti eiginlega alltaf að fara út í skóm á borð við Hi-Tech eða gömlum Converse. En ég læt þessar gáfulegu athugasemdir sem vind um eyrun þjóta og dreg fram það besta sem í boði er fyrir utan þessi hvítu skópör, hef þó rænu á að láta þann lit vera. Á reyndar hvítt skópar sem er úr striga/bómull og hefur það par fengið það óþvegið hvað eftir annað. En það sem bjargar þessu skópari frá glötun er hið ótrúlega efni Vanish. Reyndar eru Vanish auglýsingarnar með því skemmtilegra sjónvarpsefni sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Vissi ekki að til væri fólk eins og það sem leikur í þessum auglýsingum.

Ég hef unun af fatakaupum. Skór og yfirhafnir eru lykilflíkur. Maður hefur heyrt þá línu frá snótum að feður þeirra hafi imprað á því við þær að af skónum megi manninn dæma, þannig að ég dreg fram gott par þegar dansgólfssnúningar eru í nánd og pússa vel.

Ég lít á fatakaup sem fjárfestingu og reyni að eyða sem svarar góðri upphæð sem slagar upp í afföll sem eiga sér stað á ágætis bíl á einu ári – nokkuð loðin upphæð. Þar sem mínir bílar hafa aldrei farið á verkstæði og viðhaldskostnaður er í sögulegu lágmarki, þá kemur þetta sér afar vel. Eyði í föt ekki afföll. Tel mig nógu sterkan karakter til að geta verið án gljáfægð stálfáks, vel frekar mattan og beyglaðan fjölskyldubíl á aldur við menntaskólakrakka. Uppákomur eins og bremsuleysi á miðri Miklubrautinni hafa gert vart við sig, ólag í hjólabúnaði á ögurstundu á leið í Viðeyjarferju í árlegan gleðskap einnig. En það bregst ekki að bíllinn er settur inn í skúr og daginn eftir er fákurinn sem nýr. Hvað gerist inni í skúrnum er mér hulin ráðgáta – veit bara að inn í hann fer maður sem ég kalla pabba og hann virðist hafa ráð undir rifi hverju í þessum málum sem og öðrum.

En allir þurfa að horfast í augu við raunveruleikann og ég fresta því oft um 2-3 daga að skoða skóna sem ég djöflast í á gólfinu hvert sinnið sem farið er á galeiðuna.
Núna liggur svart glæsipar frammi í anddyri hjá mér sem bíður skoðunar og pússningar.

Hef haft það fyrir sið að hafa eitthvað sem bíður mín og freistar svo ég geti farið sem fyrst upp í bæli. Ekki er um aðila af hinu kyninu að ræða því miður svo það eru bara bækur þessa daganna. Bókin um heimsvæðinguna eftir Nóbelshafann Stiglitz hefur svæft mig eftir þriggja blaðsíðna lestur svo ég tók mig til í kvöld og verslaði mér reyfarann Skáldið og svo nýjustu bók Coelho. Nú bíða mín vökunætur eða eitthvað...

|




26.6.07

Gott á grillið

Það er með grín að það tekst misvel upp eða ég er þá bara ekki að ná því eða þá bara að ég er of ungur eða þá bara sitt af hvurju tagi. Á mánudögum á Rás 2 kl. 13:30 er grillþáttur í umsjón Tvíhöfða á dagskrá, þar glóa allar línur.

Eftir að hafa hlýtt á fólkið í landinu eru nokkrir karakterar sem ég væri til í að eiga stund með.
Þetta er fólk eins og Halli frá Ísafirði sem stjórnar grillfélaginu þar. Grillar naggrísi og dauða labradorhvolpa – krakkarnir hafa svo gaman af þessu. Öryrkinn stráir pillum yfir maríneraðar pakkakódilettur meðan hann grillar þær á rauðglóandi eldavélavélarhellunum, Umferðar-Einar sem varar fólk við gasi – segir okkur frá hjólhýsum sem eru sprengjur á hjólum og minnir á g-in fjögur (Gas, gleði, gát og bros); Fúsi bóndi í Mývatnssveit sem grillar spóa, álftir og fálka. Svo verð ég að minnast á manninn sem á átta brennara grill sem grillar ekkert á grillinu, vill ekki sóða það út. Maðurinn kveikir á brennurunum og horfir á þá ásamt öldruðum karlægum föður sínum. Saman horfa þeir á brennarana og pabbi hans sem hefur engan maga vegna aðgerðar fær næringu í æð, þeir stara inn í logana og tárin hrynja niður vangana og sonurinn hvíslar í eyra föður síns "fáðu þér næringu pabbi minn, sjáðu logana pabbi minn".
Margir eru handhafar sannleikans, aðrir hafa ekki fundið hann.

Hægt er að hlusta á þáttinn á ruv.is.

Þáttur sem kemst nærri Tvíhöfða er svo símatími Arnþrúðar Karlsdóttur. Það er eiginlega sama fólkið sem hringir inn til Arnþrúðar og í grillþáttinn.

Það er með þessa þætti að mér finnst þeir fanga einhvern tón í þjóðarsálinni, einhvern tón sem mér finnst eða held að sé þarna. Heyri hann reyndar aldrei en það er þetta með þennan tón, þennan tón sem Laxness nær í bókum sínum, bara annað fólk enda annar tími. Ég heyrði aldrei þennan tón í fólki Laxness enda hélt það á vit feðra sinna áður en ég komst til vits og ára.

|




22.6.07

Grensásvegur

Hvað aðhefst einstaklingur eins og ég. Hillan færist nær. Geri ég samfélaginu gagn?

Ég hef átt erfitt með að setja eitthvað sem máli skiptir mig eða að ég telji að geti verið kómískt eða vitrænt á síðuna. Hvað veldur?
Málið er að ég var á tímabili að lesa svo góðan skáldskap að mér fannst bara ekki taka því að setja orð á vef... ekki að ég væri í keppni enda ekki burðurgur til þess að veita samkeppni. Bara þegar þú hefur kannað Everest þá finnst þér Keilir ekki vera eins spennandi.

En margt upplifir maður nú í hversdagsleikanum. Ég tók upp á því í lok apríl að taka upp þráðinn hvað söngnám varðar. Er þarna á fjórðu hæð í húsi á Grensásvegi. Nýi tónlistarskólinn kallast leigjandi húsnæðisins. Er hjá kennara sem ég hafði haft fregnir af í tæp tvö ár og eftir áeggjan nemanda kennarans sló ég á þráinn til kennarans og ég viti menn enn í tímum.

Grensásvegurinn er nokkuð sérstakur, þá í allnokkru mæli í námunda við þetta musteri söngs og hljóðfæraleiks sem er þarna á fjörðu hæðinni. Köllum það birtuskil, fæ nánast í augun þegar ég hugsa til þess. Maður leggur bílnum í stæði og við manni blasir Kebab-hús sem sýnir bolta í beinni og með ótrúlegan fjölda af álímdum orðum eins og “chefs”, Kebab-hús, “bolti-í-beinni” o.fl. Þar við hliðina á er svo BK kjúklingur, staður uppfullur af iðnaðarmönnum í hádeginu – hef bara aldrei bondað við þann stað. Svo til að toppa allt er sólbaðsstofa við hlið BK. Þarna er allt sem maður þarf til að lifa, bolti í beinni, kjúklingastaður til að mingla á og ljósabekkir til að halda sér bronsuðum.

En þessir söngtímar eru alveg heví. Er að höndla þá held ég.

Grein um agavandamál í unglingavinnunni í Blaðinu í dag. Innistæðulausar hótanir grafa undan leiðbeinendum. Ég stóð við mitt sem leiðbeinandi held ég, sendi heim, dró tíma af fólki og gaf tiltal undir fjórum augum. Virðing er það sem leiðbeinandi á að ávinna sér. Allaveganna vilja fv. unglingar þar hafa tal af mér þegar ég á vegi þeirra verð og mala, hvort sem er að degi til eða að næturlagi um helgar...

|




9.5.07

Er hann með litað hár?

Ég er eiginlega alveg á því að Honsi Mubarak Egyptalandsforseti sé með litað hár og jafnvel félagi hans þarna vinstra meginn. Hosni er líka nokkuð vel hærður og orðinn held ég rúmlega sjötugur. Reyndar var afi minn aldökkhærður fram yfir sextugt.

Ég gæfi mikið fyrir að lesa sjálfsævisögu hans sem héti Ekkert undanskilið.

Ég man að ég gerði það að leik mínum á tímabili og af nokkrum metnaði, þá tólf ára gamall, að leggja nöfn ráðamanna og undirsáta þeirra ríkja sem Mogginn fjallaði um á minnið. Mig langaði einfaldlega að komast í spurningalið Hólabrekkuskóla, en svo var ekkert spurningalið. Reyndar er svona lagað alger Klepparavinna ef út í það er farið. Algengt er að Aðal skipti um undirsáta eins og nærbuxur.

|




30.4.07

Sóðalinkur

Systir mín sendi mér þennan link og sagði að þetta kæmi fyrir mig eftir tvo daga. Hún er góður vinur greinilega, veit ekki hvor ég á að vera. Oft er nú talað um gerendur sem fórnarlömb.

|




16.4.07

Chivas Regal 12 ára og óvæntur glaðningur

Þau merku tímamót urðu hjá mér að ég fór í söngtíma. Þar með er tæplega sjö ára bið á enda, varð lengri en mig óraði fyrir. Hef svalað söngþörfinni á annan hátt. Ég er svo heppinn að fá inni hjá Alinu Dubik sem mér er sagt að sé ansi fær á sínu sviði, hvort sem um ræðir söngur eða kennsla. Hef heyrt af henni sl. 2 ár, þar sem henni hefur verið hampað og hún mærð sem einmitt söngkennari og söngkona.

Búkurinn hefur verið í góðu standi og æfingar líka. En um helgina hreyfði ég mig á leðursólum. Ingimar vinur minn gaf mér forláta viskíflösku í afmælisgjöf. Opnaði hana á laugardaginn og tók umbúðir utan af. Hann hefði náttúrulega átt að vera viðstaddur en við dreypum á veigunum saman síðar. En mér til undrunar þegar umbúðirnar voru rifnar af flöskunni þá var ekki um falskan pappabotn að ræða heldur tvö lærdómsrit frá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Þetta voru ritin Agricola og Germania eftir rómverska sagnfræðinginn Cornelius Tacitus. Kom þetta skemmtilega á óvart. Annars er Flugdrekahlauparinn á náttborðinu þessa daganna eða frekar bara frá því í gær.

Annars er þetta tómt blaður. Ætli ég mali ekki á síðunni næst um neysluna. Bara þessa neysluhyggju sem heldur manni gangandi og er alltumliggjandi og maður fær ekki rönd við reist, bara kaupir og kaupir og finnur fyrir innantómri gleði við að innbyrða ný gæði sem eru greidd út í hönd eða á krít. Best að eyða í sparnað, maður eyðir eins og maður aflar, því ekki að eyða í sparnað. Eyða í sparnað uns maður er svo vel búinn að maður getur fengið að skulda eitthvað að ráði, fengið að skulda hluta af svo sem einni íbúð.

Er ekki enn farinn að kaupa Happaþrennur og Lottó-miða. Eftir frétt sem ég las um tæplega sjötuga konu sem vann 70 miljónir á Happaþrennumiða og það í annað skipti þá má vera að maður stelist til að styrkja gott málefni.

Ég hef aldrei stundað fjárhættuspil, þ.e. peningakassa og póker. Nú er e.t.v. tími til kominn að leggja góðu málefni lið, taka þann pólinn í hæðina að styrkja með klinki það sem getur gefið mér vel í aðra höndina þrátt fyrir að líkurnar séu stjarnfræðilega litlar.

|




11.4.07

Akstur

Ég hef gert nokkuð af því að þeysast um vegi landsins, einn eða með öðrum. Það er víst þannig að ég sit ávalt undir stýri þar sem ég á mestu drusluna og hún er tilvalin til afnota á malarvegum sem öðrum vegum. Maður hugsar allt í markmiðum þegar maður heldur af stað.
Kílómetrar taldir, mínútur og klukkustundir einnig. Gefið í á beinum köflum, tími milli bæja tekinn o.s.frv...

Man eftir ferð norður til Siglufjarðar þar sem náði að keyra á áfangastað á einum tanki án stoppa að mig minnir. Fór eitt sinn á Skódanum yfir Kjöl og lenti útaf vegi á eina staðnum þar sem var ekki stórgrýti á kafla.

Ég hélt austur til Breiðdalsvíkur á föstudaginn langa. Hitti mann sem aumkaði sér yfir mér að ég þyrfti einn í bílnum að vera alla þessa leið. En ég kann því vel að aka einn. Var heppinn með útvarpsþætti á Gufunni og svo var iPodinn við höndina.

Ég var búinn að gefa mér ákveðinn hraðatakmörk, ekki upp fyrir ákveðinn hraða, bíllinn þyldi ekki við. Jæja, athugaði olíu og hún var eitthvað lítil á vélinni. Engin var inni í skúr. Stoppa í Árbæ en nenni ekki að bíða í röðinni svo ég held af stað og Klaustur er góður staður til að fylla á vélina. Þegar þangað er komið og ég opna húddið þá sé ég ekki betur en ekkert er lokið á innfyllingarstaðnum og vélarhúsið skreytt með biksvartri leðjunni. Athuga olíuna mér til skemmtunar og sé að hún er engin. Helli tveimur brúsum á og sé þá lokið skorðað svo ekki þurfti ég að nota dökkteip, sem ég nota bene tek með mér í allar svona ferðir auk sjúkratösku.

Öræfin, Suðursveitin og norðan Hafnar eru svæði sem gaman er að fara um svo ég ók á beinum vegum þar eins og druslan dreif. Ætlaði reyndar að fá mér bita á Höfn en þar var engin á sveimi og öll ljós slökkt á helstu búllum bæjarins enda krossfestingin hörmuð eða syrgð.

Brúðkaup með gauli og veisla með ræðu og gauli voru upplífgandi fyrir mig og snúningar á leðursólum þar á eftir.

Svo á leiðinni heim þá keyri ég eins og fákurinn og aðstæður leyfa. Er þarna á siglingu utan í fjalli þegar ég lendi í slabbi og hægi á bílnum en það dugar ekki til og ég bremsa og ég og stálfákurinn snúumst hálfhring og framendi bílsins nærri þverhnípinu. Maður verður að passa sig.
Bíllinn hafði verið eitthvað skringilegur þegar hraðinn var aukinn og nálgaðist annað hundraðið að hálfu, gerist það svo að það springur. Gat verið, afturdekkið í mauki og búið að vera það báðar leiðirnar, vagninn allt annar eftir skiptingu.

|